Efnt var til afmælishátíðar laugardaginn 8.febrúar í Hljóðbergi, í tilefni af því að Hannesarholt var opnað formlega fyrir ári síðan, eftir gagngerar endurbætur á húsinu að Grundarstíg 10. Bronsmynd af Ragnheiði Hafstein var boðin velkomin aftur í húsið, sem Hannes Hafstein lét gera eftir lát konu sinnar, og hékk uppi í húsinu honum til hugarhægðar í sinni djúpu sorg. Myndinni hefur verið komið fyrir í arinstofu á annari hæð hússins. Systurnar Ragnheiður Elín og Þórunn Erna Clausen fluttu valin ástar- og erfiljóð langafa síns Hannesar til Ragnheiðar. Jakob Frímann Magnússon færði færði Hannesarholti óvænta gjöf fyrir hönd STEF, því til staðfestingar að menningin dafnar í Hannesarholti. Félagar úr Schola Cantorum glöddu viðstadda með söng og Guðmundur Andri Thorsson ræddi ljóðlist Hannesar Hafstein.  Húsfyllir var og góð stemning meðal gesta.