Bygging núverandi húss

Heimildum ber ekki alveg saman um byggingarár hússins. Húsakönnun á vegum Minjasafns Reykjavíkur segir húsið byggt árið 1904, í fasteignaskrá má sjá ártalið 1898 og Guðjón Friðriksson talar um árið 1903 í grein sinni um Grundarbæina 1990 (1).

Hönnuður hússins er ókunnur en húsið er timburbindingur klætt með bárujárni. Í húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur er það kallað einfalt sveitserhús (2).

Á myndinni má sjá Grundarstíg 9 en einnig sést í Grundarstíg 7.


Fróðleiksmolar

Fyrsti eigandi Grundarstígs 9 var Högni Finnsson, trésmiður en 1907 keypti Árni Jóhannesson frá Seyðisfirði húsið og skírði það Bjarka en Árni hafði átt hús með því nafni á Seyðisfirði. Guðmundur Böðvarsson heildsali keypti húsið árið 1913 og árið 1990 var húsið enn í eigu afkomenda hans (sjá grein Guðjóns Friðrikssonar, Á slóðum Grundarbæjanna 1990). Þetta hefur því verið sannkallað fjölskylduhús eins og mörg önnur við Grundarstíginn. Til gamans má geta þess að kona Guðmundar, Kristín Magnúsdóttir Stephensen, var barnabarn Magnúsar Stephensen „conferensráðs“ úr Viðey.


Starfsemi í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1914: Umboðsverslun Guðmundar Böðvarssonar er flutt á Grundarstíg 9 (augl.)
  • 1915: Peningaskápa, enska, af bestu tegund, mjög ódýra eftir gæðum útvegar Guðmundur Böðvarsson, Grundarstíg 9 (augl.)
  • 1916: Áslaug Guðmundsdóttir. Sími 180. Grundarstíg 9. Setur upp hár eftir nýjustu tizku. Greiðir heima ef þess er óskað (augl.)
  • 1932: Sölu fasteigna (húsa, lóða, jarða o. s. frv.) tek jeg að mjer gegn sanngjörnum ómakslaunum. Viðtalstími kl. 6—7 síðdegis og eftir umtali. G. Böðvarsson. Grundarstíg 9. Sími 180 (augl.)


Skemmtileg frétt

Heimildir:

1. Guðjón Friðriksson. (1990, 13. október).  Úr sögu Grundarstígs:  Á slóðum Grundarbæjanna í Reykjavík.  Lesbók Morgunblaðsins. Sótt 19. júlí 2010 af http://www.timarit.is
2. Páll V. Bjarnason. (2004). Húsakönnun:  Bergstaðastræti – Bjargarstígur – Grundarstígur – Óðinsgata – Spítalastígur. Reykjavík:  Árbæjarsafn