Dagur íslenskrar tungu - Hraun í Öxnadal

9. nóv. 2020

Hraun í Öxnadal við lag Valgeirs GuðjónssonarÍslenskan dafnar og nýsköpun á gömlum grunni blómstrar. Þátttaka í lagakeppni Hannesarholts við ljóð Hannesar Hafstein fór fram úr björtustu vonum og 205 lög við 48 ljóð Hannesar voru send inn, þar sem lagahöfundar á öllum aldrei fundu innblástur í meira en aldargömlum ljóðum, sem leika á alla tóna tilfinningaskalans.

Áður hefur Hannesarholt fengið þrjú ný lög samnin við ljóð Hannesar. Tryggvi M.Baldvinsson samdi nýtt lag við ljóðið Þagnið dægurþras og rígur 2011 og frumflutt var á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar 17.júní sama ár, Þóra Marteinsdóttir samdi nýtt lag við ljóðið Fjalldrapi, sem frumflutt var á afmælisdegi Hannesar Hafstein 4.desember 2019 og loks samdi Valgeir Guðjónsson nýtt lag við Hraun í Öxnadal, sem frumflutt var á 7 ára afmæli Hannesarholts 8.febrúar 2020. Valgeir hefur sent frá sér upptöku af laginu, þar sem hann nýtur m.a.fulltingis dóttur sinnar Vigdísar Völu, Pálma Sigurhjartarsonar, Magnúsar Oddsonar.  

Rúmlega tvítugur að aldri fann Hannes Hafstein að því við þjóð sína að hún hefði ekki metið Jónas Hallgrímsson að verðleikum né sýnt honum tilhlýðilega virðingu. Á stúdentsárum sínum í Kaupmannahöfn fékk Hannes það verkefni að taka saman höfundarverk Jónasar til útgáfu. Í dýrt kveðnum inngangi að útgáfunni frá 1883 bendir hann á að þegar komið sé fram Öxnadalinn að fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar blasi við minnisvarði um Jónas, sem náttúran hafi þar reist sínum uppáhaldssyni í Hraundröngum. Það er skemmtilegt að rifja upp þessi orð ungs manns fyrir nær 140 árum í ljósi þess að nú um stundir er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar, 16.nóvember, haldinn hátíðlegur um allt land, sem Dagur íslenskrar tungu, og þar með óskir þessa unga manns uppfylltar. Þetta dæmi getur unga kynslóðin tekið til sín sem hvatningu til að láta rödd sína heyrast, og að hafa má áhrif á umhverfi sitt og menningu, þótt ekki sé hrópað af húsþökum.