Verður og fer sem fer? / Que sera sera?

  • 10.5.2019 - 14.6.2019, 16:00 - 18:00, Veitingastofur

Þura - Þuríður Sigurðardóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist 2001 frá Listaháskóla Íslands. Þar áður sótti hún tíma í Myndlistaskóla Reykjavíkur og nam við listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1996-98. Hún sótti einnig námskeið í íkonamálun hjá prófessor Yuri Bobrov, prófessor í íkonafræðum við Listakademíuna í St. Pétursborg.

Frá námslokum hefur Þuríður unnið að myndlist og sýnt víða bæði innanlands og utan. Hún fæst fyrst og fremst við olíumálverk og viðfangsefnið er gjarnan náttúran, stundum með þröngt eða óvænt sjónarhorn. Hún hefur kennt við Myndlistaskóla Reykavíkur og á eigin námskeiðum og verið sýningarstjóri. Þuríður var einn af stofnendum START ART listamannahúss sem starfrækt var frá árinu 2007 - 2009. Galleríið stóð fyrir listverkefninu "Laugavegurinn" á Listahátíð í Reykjavík vorið 2009 með þátttöku fjölda listamanna og almennings. Í framhaldi var gefin út bókin LAUGAVEGURINN 2009 og þar sat Þuríður í ritstjórn. Þuríður hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. setið í stjórn Sambands íslenskra listamanna og Bandalags íslenskra listamanna. Hún átti þátt í stofnun og rekstri Opna Gallerísins sem nýtti sér ýmis rými í 101 Reykjavík 2002-2003.

Þuríður var valin bæjarlistamaður Garðabæjar 2004.

Úr sýningarskrá:

Nýlega birti Veðurstofa Íslands niðurstöður nýrra mælinga á jöklabúskap Snæfellsjökuls.Talið er líklegt að jökullinn verði að mestu horfinn um miðja öldina. Hann hefur rýrnað mikið vegna hlýnandi loftslags síðustu áratugi og er flatarmál hans nú minna en 10 ferkílómetrar. Árið 1910 var flatarmálið um 22 ferkílómetrar.

Viðbrögð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra, við þessum fréttum voru á þá leið að sér þættu þetta dapurlegt: „Sem einstaklingur sem ólst upp við að hafa Snæfellsjökul í bakgarðinum, þá eru þetta náttúrulega alls ekki góð tíðindi fyrir okkur Íslendinga.“ Síðan fór hann út í samhengið á heimsvísu og pólitísk viðbrögð við loftslagsbreytingum. Ráðherra dró ekki dul á þá persónulegu tilfinningu sem bærist í brjósti svo margra þegar maður skynjar breytingarnar í sínu nánasta umhverfi. Umhverfi sem er svo mikið meira en bara landslag eða sjóndeildarhringur. Ef til vill er það einmitt þá sem fólk vaknar til vitundar af alvöru. Jökullinn er nefnilega langt frá því að vera bara að jafnaði um 30 metra metra þykkur ís sem hylur um 10 ferkílómetra lands. Hann er fyrst og fremst dulmagnað náttúrufyrirbæri sem hefur örvað náttúruskynjun og sköpunargleði manna alla tið.

Í skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, Heimsljós (1937–40) um skáldið og sveitarómagann Ólaf Kárason er lýst leit hans að fegurðinni: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu." Snæfellsjökull er sögusvið bókarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Verne, en söguhetjan ferðast að miðju jarðarinnar frá jöklinum. Hann hefur birst í málverkum Muggs, Jóhannesar S. Kjarvals, Júlíönu Sveinsdóttur, Kristínar Jónsdóttur og fjölda annarra listamanna. Margir telja að frá Snæfellsjökli stafi sérstök jarðorka og finna sumir mjög sterk áhrif frá jöklinum. Telja þeir hann vera eina af sjö stærstu orkustöðvum jarðar og nágrenni hans kjörlendi til heilunar.

Það er því ekki að undra að tilhugsunin um að þessi fastapunktur í tilverunni muni hverfa sjónum okkar og þar með úr hugskoti okkar hafi djúpstæð áhrif. Á degi jarðar fyrir þremur árum, skömmu áður en hið svokallaða Parísarsamkomulag var undirritað, fann listamaðurinn Þura sig knúna til þess að tjá hugsanir sínar um áhrif loftslagsbreytinga í myndverki. Viðfangsefnið varð ósjálfrátt Snæfellsjökull, jökullinn sem hún ólst upp með „í bakgarðinum.“ Síðan þá hefur efnið sótt æ sterkar á hana og málverkin safnast upp í þá sýningu sem hér um ræðir. Náttúruvernd og umhverfisvitund hafa þó alla tíð verið hluti af listsköpun Þuru með beinum og óbeinum hætti. Sem dæmi tókst hún á við náttúru votlendisins, mýrarnar með sínu gróðurlífi, vatnafari og mýrarrauða. Stór hluti votlendis hér á landi hefur tekið miklum breytingum vegna breyttrar vatnstöðu í kjölfar framræslu. Mýrar hafa að geyma ógrynni af kolefni og allar breytingar í kolefnisbúskap þessara vistkerfa því mikilvægar á hnattræna vísu. Þura beindi sjónum sínum, og okkar um leið, að þessu einstaka náttúrufyrirbæri.

Nú eru það jöklarnir. Snæfellsjökull fer fremstur í flokki en margir aðrir koma við sögu, til að mynda Öræfajökull, Eiríksjökull og Eyjafjallajökull. Þura gengur lengra en að mála eftirmyndir af jöklunum, þeim bregður vissulega fyrir en að stærstum hluta virðist sem þeir séu að leysast upp, bráðna, leka niður, verða gegnsæir og jafnvel algerlega ósýnilegir. Stundum vart annað en minning. Þegar rýnt er í undirlag málverkanna kemur ýmislegt í ljós, því þar leynist annar myndheimur af ólíkum toga. Á stöku stað glittir í fyrrnefnt votlendi. Þá bylgjur norðurljósa. Eða silfraða frostpolla. Þegar allt kemur til alls eru jöklamálverk Þuru öll unnin á undirlag eldri málverka. Þar má sjá kunnugleg þemu frá fyrri myndaröðum hennar. Þannig kemur í ljós marglaga tilfinning fyrir tíma, því að náttúrufyrirmyndir listamannsins eiga tilvist sína undir kosmískum tímaskala en um leið finnum við nú á eigin skinni að þau geta máðst út á einni mannsævi ef ekki skemur. Málverkin eru frá tveimur tímaskeiðum sem minnir á hvernig tíminn líður „á okkar vakt“ án þess að við fáum nægilega mikið að gert til þess að stemma stigu við ógninni. Eða hvað hefur áunnist siðan Parísarsáttmálinn var undirritaður? Loks er það tími málverksins, sem nostursamlega unnin málverk Þuru frá fyrri tímabilum bera svo glöggt vitni en svo bregður við allt annan tón í hinu nýja yfirlagi jöklamyndanna sem virðast unnar í einu vetfangi, í miklu flæði og ekki að fullu undir stjórn listamannsins. Ekki einu sinni hvítir rammarnir ná að stöðva öra framrásina.

Síðast en ekki síst læðist að manni hugmyndin um einhvers konar fórn. Eða er ekki algjör synd að mála yfir þessi fallegu verk frá fyrri tíð? Hér kallast á eftirsjá eftir einhverju sem var og sú áskorun að taka sig taki og horfa fram á veg. Í stað depurðar yfir missinum vaknar uppörvunin við að endurnýta, njóta augnabliksins en leyfa því síðan að líða hjá og gleðjast yfir einhverju nýju. Jöklamyndir Þuru eru margræð áminning í umræðu sem – til allrar hamingju – hefur stigmagnast á þeim fáu árum frá því að málarinn hófst handa við fyrstu verkin á sýningunni.  


Eldri sýningar

Boðar og brim - Guðrún B. Ingibjartsdóttir 9.4.2019 - 8.5.2019 15:00 - 17:00 Veitingastofur

 

Nikulás Sigfússon afmælissýning 30.3.2019 - 7.4.2019 15:00 - 17:00 Veitingastofur

 

Vatnslitamyndir Margrétar Kolka Haraldsdóttur 2.2.2019 - 26.2.2019 16:00 Veitingastofur

 

Sögumálverk - samferðamenn - Soffía Sæmundsdóttir 4.11.2018 - 28.11.2018 16:00 - 22:00 Veitingastofur

 

Þrándur Þórarinsson Borgarmyndir 6.10.2018 - 1.11.2018 16:00 - 8:00

 

"Jöklasýn" 8.9.2018 - 3.10.2018 16:00 - 17:00 Veitingastofur

Guðrún Benedikta Elíasdóttir opnar myndlistarsýningu sína "Jöklasýn" í Hannesarholti laugardaginn 8.september kl.16.

Lesa meira
 

"Hún" frá Afríku til Íslands 27.7.2018 - 4.9.2018 16:00 - 17:00 Veitingastofur

 

Katrín Jónsdóttir 30.6.2018 - 26.7.2018 Veitingastofur

Katrín Jónsdóttir, grafískur hönnuður sýnir myndskreytinga á sýningu sem hún nefnir Samtal og stendur fram eftir júlímánuði. Í verkum sínum tekst Katrín á við spurningar um öryggi og mannúð, um ógnanir og frelsi, um pláss í samfélaginu fyrir alla plássleysi. Þakklæti til samfélags og samferðamanna sem hafa veitt öryggi og stuðning, en jafnframt meðvitund um hina mörgu sem ekki njóta þess sama.

Lesa meira
 

Ingibjörg Hallgrímsdóttir Dalberg 31.5.2018 - 28.6.2018 Veitingastofur

 

Marilyn Herdís Mellk 3.5.2018 - 30.5.2018 Veitingastofur

Marilyn Herdís Mellk opnar sýningu á verkum sínum þann 3.maí í Hannesarholti og mun hún standa í fjórar vikur.

Lesa meira
 

Hilmar Hafstein Svavarsson 5.4.2018 - 2.5.2018 Veitingastofur

 

Gjúgg í blóm (Peekaboo) eftir Georg Douglas 1.3.2018 - 28.4.2018 Veitingastofur

Georg Douglas opnar málverkasýningu í Hannesarholti fimmtudaginn 1. mars sem nefnist ,,Gjúgg í blóm" - ,,Peekaboo".

Lesa meira
 

Fjarskinn er blár 16.9.2017 - 14.10.2017 15:00 - 17:00 Veitingastofur

Þóra Jónsdóttir, myndlistakona og ljóðskáld, heldur sýningu á vatnslitaverkum sínum og hefst sýningin á opnun laugardaginn 16. september kl. 15:00.

Lesa meira
 
Síða 1 af 2