Bach 335 ára - Chiaconne Guðný Guðmundsdóttir

  • 21.3.2020, 14:00 - 16:00, 0

Johann Sebastian Bach 335 ára.

Þann 21.mars árið 2020 verða liðin 335 ár frá fæðingu Bachs. Í því tilefni mun Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari flytja hið magnaða verk hans Chiaconne fjórum sinnum frá kl.14.00-16.00.

Verkið tekur u.þ.bil 15 mínútur í flutningi og verður flutt kl.14:00, 14:30, 15:00 og 15:30.

Chiaconne er 5. og síðasti þáttur í Partitu nr. 2 í d-moll fyrir einleiksfiðlu, BWV 1004.Þetta er talið eitt mest krefjandi einleiksverk, sem samið hefur verið fyrir hljóðfærið og er oft flutt eitt og sér án hinna þáttanna. Chaconne er byggt á fjögurra takta stefi, sem Bach samdi 64 tilbrigði við.

Talið er að Bach hafi samið verkið til minningar um eiginkonu sína, Maríu Barböru Bach, sem lést árið 1720. Það er óhætt að segja að verkið felur í sér allan mannlegan tilfinningaskala. Eftirfarandi ummæli heimsþekktra fiðlusnillinga styðja það svo sannarlega: Yehudi Menuhin: “Uppbygginf verksins er sú fullkomnasta allra einleiks fiðluverka sem til eru”. Joshua Bell: “Chaconne Bachs er ekki eingöngu eitt allra stórkostlegasta tónverk, sem samið hefur verið, heldur er það líka eitt stærsta afrek mankynssögunnar. Andlegur og tilfinningalegur kraftur verksins er mikilfenglegur og uppbygging þess er fullkomin.”

Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari hefur staðið á tónleikapalli í yfir hálfa öld. Aðeins 15 ára gömul hóf hún að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem lausráðin. Hún hélt sína fyrstu einleikstónleika 16 ára gömul í sal Tónlistarskólans í Reykjavík. Í námi í Bandaríkjunum kom hún m.a. fram sem einleikari með Rochester Fílharmóníuhljómsveitinni. Hún hélt “debut” tónleika í Wigmore Hall í London árið 1972 við feykilega góðar undirtektir og frábæra dóma í helstu blöðum Lundúna. Eftir útskrift frá hinum þekkta tónistarháskóla, Juilliard í New York, tók Guðný við stöðu 1. konsertmeistara í Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 1974, stöðu sem hún gengdi til síðla árs 2010. Meðfram störfum í S.Í. gengdi Guðný mikilvægu hlutverki, sem fiðlukennari og eru nemendur hennar margir í fremstu röð íslenskra fiðluleikara og starfa bæði á Íslandi og einnig erlendis í leiðandi stöðum í heimsþekktum hljómsveitum og sem kennarar í þekktum háskólum. Guðný hefur komið fram víða erlendis, sem einleikari og gestakennari. Hún einbeitir sér nú aðallega að kennslu og tónleikahaldi heima og erlendis.

Á döfinni í næstu framtíð er frumflutningur á nýjum fiðlukonsert eftir John Anthony Speight með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sem verður í apríl næstkomandi.