Hönnunarmars: Holmen Svømmehall. Bygging ársins í Noregi 2017

  • 30.3.2019, 14:00 - 15:00, Hljóðberg

Verkefnið Holmen Svømmehall verður kynnt í Hannesarholti laugardaginn 30. mars næstkomandi.
Þann 14. mars í fyrra var verkefnið valið bygging ársins í Noregi 2017 á Bygg Dagene í Osló.
Sýndar verða teikningar og módel af verkefninu frá kl. 10:30 en fyrirlestur verður haldinn um verkefnið kl. 14:00.

Holmen svømmehall er sundhöll sem staðsett er í Asker í Noregi og verkefnið unnið af íslenskum ráðgjöfum. Arkís arkitektar í samstarfi við Verkís verkfræðistofu hafa staðið saman að nokkrum verkefnum í Noregi. Vinna við Holmen svømmehall hófst í ágúst 2013 og var verkefnið tekið í notkun í júní 2017. Mikill metnaður lá að baki verkefninu og staðsetningin einstök niður við ströndina í Asker með útsýni yfir Oslófjörðinn.
Það má segja að einstaklega vel hafi tekist til að stilla saman væntingar og markmið allra sem að verkefninu komu sem skilaði sér í þeim árangri að Sundlaugin við ströndina í Asker var valin bygging ársins í Noregi 2017.
Verkefnið er um 5300m2 að stærð og er byggt samkvæmt Passiv hus standard hvað orkuöflun og orkunýtingu varðar og var valið eitt af fyrirmyndarverkefnum Future Built í Noregi. Við sundlaugina eru 15 orkubrunnar sem nýta jarðvarma úr svæðinu auk þess sem 650m2 af sólarsellum er komið fyrir á húsinu.