Þrælar Afrísk - amerískir vinnusöngvar

  • 2.2.2019, 20:00 - 21:30, Hljóðberg, 3500

Guðrún Ösp Sævarsdóttir mezzósópran og Helga Kvam Píanóleikari flytja rótgróna vinnusöngva frá tímum þrælahalds við útsetningar Harry T. Burleigh.

Burleigh var afrísk-amerískur og ólst upp í Pennsylvaníu. Hann hafði alla tíð dálæti á tónlist en vegna fátæktar gat hann ekki farið í nám fyrr en 1892 þegar honum var veittur skólastyrkur.

Burleigh útskrifaðist úr National Conservatory í tónsmíðum og klassískum söng. Hann var þekktur fyrir sína fögru baritón rödd og söng í 50 ár í sama kirkjukórnum.

Alla skólagönguna vann hann fyrir sér með þrifum í skólanum og raulaði sér til yndis gömlu vinnusöngvana sem afi hans (sem var fyrrum þræll) kenndi honum. Antonín Dvorák var einn af starfsmönnum skólans og heillaðist af tónunum. Dvorák hvatti hann til að útsetja söngvana sem leiddi til þess að Burleigh varð fyrstur hörundslitaðra manna til að gefa út fallegu gömlu söngvana fyrir klassískan söng.

Burleigh var mikill brautryðjandi í að brúa bilið á milli hörundslitaðra og hvítra manna og samdi ótal verk. Hann vann meðal annars til verðlauna fyrir söngvana sem sungnir verða á tónleikunum. 

Stöllurnar Guðrún Ösp mezzo sópran og Helga Kvam koma frá höfuðstað norðurlands. Þær fluttu verk Burleigh í Menningarhúsinu Hofi í nóvember síðastliðinn við mikið lof tónleikagesta.
 
Guðrún Ösp er fædd og uppalin à Akureyri. Guðrún byrjaði að læra söng árið 2009 í Tónlistarskóla Eyjafjarðar hjá Þuríði Baldursdóttur en lauk framhaldsprófi árið 2017 við Tónlistarskólann á Akureyri undir leiðsögn Michael Jóns Clarke. Guðrún stundar nú nám framhaldsstigi við Tónlistrarskólann á Akureyri undir leiðsögn Michael Jóns Clarke, Jóni þorsteinssyni og Daníel Þorsteinssyni. 
Guðrún hefur komið fram á fjölda tónleika m.a með Arctic Opera sönghópnum. Árið 2018 söng hún Alt solo i Petite Messe Solennelle eftir Rossini með Kirkjukór Akureyrar. Guðrún hefur stórt raddsvið og mikla rödd.

Helga Kvam er fædd á Akureyri og uppalin á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð. Helga lagði stund á píanónám á framhaldsstigi við Tónlistarskólann á Akureyri 1991 og nám í þjóðlagatónlist á Írlandi 1997-1999.
Helga hefur starfað við tónlist allt frá 1986 sem flytjandi, verið tónlistarstjóri og verkefna/viðburðastjóri í fjölbreyttum verkefnum.
Helga sýnir mikla fjölbreytni sem píanóleikari og spannar tónleikaferill hennar allt frá klassískum verkum til dægurlaga-/djass tónlistar, hvort sem er um að ræða meðleik, einleik eða samspil í stærri hljóðfærahópum.