Tónleikar - Gisnar tímaraðir

  • 5.6.2019, 20:00 - 21:00, Hljóðberg, 3000, 2000

Tónleikar í Hannesarholti 5. júní 2019 kl. 20

Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari flytja þýskar og íslenskar einsöngsperlur - allt frá 18.öld til okkar daga - sumar þeirra eru mjög sjaldan uppi á borði. Jafnframt mun Trausti Jónsson veðurfræðingur og áhugamaður um tónlistarsögu segja frá fordómum sínum gagnvart lögunum og/eða tónskáldum þeirra og dreifa nokkrum (gisnum) fróðleiksmolum.

Trausti Jónsson veðurfræðingur og áhugamaður um tónlist kynnir lögin og viðrar baráttu sína við eigin fordóma gagnvart þeim og tónskáldunum.

Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópransöngkona útskrifaðist úr Royal Scottish Academy of Music and Drama árið 2007 með mastersgráður í tónlist og óperu. Síðan þá hefur hún sungið óperuhlutverk bæði hér heima og erlendis t.d. með Íslensku óperunni, Norsku óperunni, Clonter Opera Theatre, RSAMD, Norðurópi og Óp-hópunum. Árið 2010 vann Bylgja Dís til fyrstu verðlauna í Barry Alexander International Vocal Competition og söng þar af leiðandi á verðlaunatónleikum í Carnegie Hall. Bylgja Dís hefur haldið fjölda einsöngstónleika þ.á.m. tvenna Tíbrártónleika og fjölmarga hádegistónleika hjá Íslensku óperunni. Þá hún hefur komið fram með Royal Scottish National Orchestra og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins þar sem hún söng sópranhlutverkið í Carmina Burana. Nýlega söng Bylgja Dís hlutverk Sentu í rokkuppfærslu Norðuróps á Hollendingnum fljúgandi og sópranhlutverkið í frumflutningi á Lúterskantötu eftir Eirík Árna Sigtryggsson með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og kórum Kjalarnesprófastdæmis. Bylgja Dís var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem Söngkona ársins 2017 í flokki klassíkur og samtímatónlistar fyrir tónleika sem voru í tónleikaröðinni Klassík í Vatnsmýrinni.

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson.  Hún  stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusar-akademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila.  Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit  áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Á síðasta ári kom út geisladiskur með flutningi Helgu Bryndísar á einleiksverkum eftir Robert Schumann. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.

Trausti Jónsson veðurfræðingur er áhugamaður um tónlist og tónlistarsögu. Hann ber ábyrgð á um 80 þáttum um tónlistarsögulegt efni í útvarpi og hefur um áratugaskeið smurt útgáfu á íslenskum einsöngslögum og endurútgáfu á íslenskum sönghljóðritum.  

 

Söngskrá: 

Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791):

Nú tjaldar foldin fríða (Þorsteinn Erlingsson)

An Chloe (J.G. Jacobi)

Franz Schreker (1878-1934)

Uendliche Liebe (L. Tolstoi)

Lenzzauber (E. Scherenberg)

Richard Strauss (1864-1949)

Guten Morgen ´s ist Sankt Valentinstag (Shakepeare (þýsk þýðing))

Wanderers Gemütsruhe (Goethe)

Hanns Eisler (1898-1962)

Elegie 1939 (B. Brecht)

Spruch (B. Brecht)

Anton Webern (1883-1945)

Ideale Landschaft (R. Dehmel)

Sigfús Einarsson (1877-1939)

Allt fram streymir endalaust (Kristján Jónsson)

 

Hlé

 

Sigfús Einarsson (1877-1939)

Kvölds í blíða blænum (Brigitta Tómasdóttir)

Jón Þórarinsson (1917-2012)

Syng mig heim (Hannes Hafstein þýddi Björnstjerne Björnson)

Skógardraumur (Davíð Stefánsson)

Manstu (Friðfinnur Ólafsson)

Reynir Axelsson (f.1944)

Máría gekk til kirkju (þjóðvísa)

Markús Kristjánsson (1902-1931)

Gott er sjúkum að sofna (Davíð Stefánsson)

Hallgrímur Helgason (1914-1994)

Söknuður (Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti)

Bjarni Böðvarsson (1900-1955)

Blunda rótt (Ágúst Böðvarsson)

Birta Reynisdóttir (f. 1990 )

When I am dead, my dearest (Christina Rosetti)

Gunnar Reynir Sveinsson (1933-2008)

Bráðum kemur betri tíð (Halldór Laxness)

 

Þýsk og íslensk einsöngslög

Í djúpri tengingu má segja að sönglög Mozart séu upptaktur að báðum hlutum þessarar dagskrár. Minna þekktur samtímakollegi hans, hinn norðurþýski J.A.P. Schulz, hefði kannski frekar átt að fá fyrsta lag dagskrárinnar – á sinn hátt ái beggja stofna, þess þýska og íslenska – en Mozart varð fyrir valinu að þessu sinni.

Síðan leið 19. öldin, aðaluppskerutími þýska ljóðasönglagsins – Schubert, Schumann, Brahms, Wolf og allir hinir. Við sleppum þessum risum – en þeir sem til þekkja heyra bergmál þeirra í gegnum alla dagskrána.

Sá sem þetta ritar hefur alla tíð vitað af þýska ljóðalaginu sem fyrirbrigði – en hann sinnti því samt lengi vel ekki beinlínis. Íslenska einsöngslagið er inngrónara, samvaxið fjölmörgum ljúfum bernskuminningum. Leiðin lá síðan frá því inn í norrænan, þýskan, enskan og amerískan alþýðulagaarf – og þaðan inn í ljóðasönginn – kannski ekki svo ósvipaða slóð og ljóðalagið fór sjálft fyrir 200 árum.

Hlustaði upp úr 1970 töluvert á sönglög Franz Schubert – hann vandist vel – og sýnir vel hinn gríðarlega fjölbreytileika sem hægt er að troða inn í þetta knappa form – í kaupbæti græddist formsýn á dægurlögin sem fylltu eyrun um það leyti.

Svo hófst glíman við einsöngslögin alvarlega fyrir um 35 árum – og stendur enn – alltaf jafn erfið, sem er einkennilegt. Hefði fyrirhöfnin verið ljós frá upphafi hefði trúlega verið beygt af. 

Tónskáldið Mozart þekkti maður auðvitað fyrir 35 árum, vissi vel af Strauss og Webern, jú og Eisler, en hafði þá aldrei heyrt Schreker nefndan á nafn. Rótgrónir fordómar ríktu gagnvart bæði Richard Strauss og Hanns Eisler. Aðaltalsmenn Strauss voru miðaldra og eldri sópransöngkonur – varla gat maður tekið mark á þeim - og Eisler hafði verið hirðtónskáld austurþýska kommúnistaflokksins – það gat ekki lofað góðu. Að Webern hefði samið sönglög var lítið um talað og að auki var hann einn meginspámanna seríalismaskrímslahersins – hlaut að vera fullkomlega óskiljanlegur.

Þó íslensku lögin hafi ætíð verið auðveldari viðfangs er það samt þannig að undirmeðvitundin stýrir í átt að einu frekar en öðru. Stundum hefur hún sneitt hjá landi þar sem síst skyldi. Ástæður oft nokkuð hroka- eða fordómafullar. Við veltum vöngum yfir því.

Við heyrum hér 3 af æskuverkum Jóns Þórarinssonar, þau hafa lítið sem ekkert heyrst í 80 ár.

Þakka Reyni Axelssyni og dóttur hans, Birtu, fyrir þá vinsemd að leyfa listakonunum að flytja lög þeirra „Máría gekk til kirkju“  og „When I am dead my dearest“ hér og nú.

Verkin eftir Markús Kristjánsson, Hallgrím Helgason, Bjarna Böðvarsson og Gunnar Reyni Sveinsson eru í öndvegi íslenskra sönglaga – keppa öll í flokknum tíu bestu. Hver hinir sex keppendur eru verður ekki upplýst hér.

 Vorið 2019, Trausti Jónsson

 

English version:

Bylgja Dís Gunnarsdóttir soprano and Helga Bryndís Magnúsdóttir piano give a recital of German and Icelandic lieder. The German composers are: Wolfgang Amadeus Mozart, Franz Schreker, Richard Strauss, Hanns Eisler and Anton Webern, the Icelandic composers are: Sigfús Einarsson, Jón Þórarinsson, Markús Kristjánsson, Bjarni Böðvarsson, Hallgrímur Helgason, Gunnar Reynir Sveinsson and Reynir Axelsson.