Tónleikar Gunnar Kvaran og Helga Bryndís Magnúsdóttir - Til heiðurs John Speight

  • 23.2.2020, 16:00 - 17:00, Hljóðberg, 3000

Gunnar Kvaran og Helga Bryndís Magnúsdóttir halda tónleika til heiðurs John A. Speight vegna 75 ára afmælis hans í Hljóðbergi Hannesarholts sunnudaginn 23. febrúar kl.16. Á efnisskránni verður meðal annars frumflutt verkið Einu sinni var fyrir píanó og celló eftir afmælisbarnið, sem byggir á röð af örsögum.  Einnig leika þau verk eftir eftir Vivaldi, Bethoven, og Schumann.

Gunnar Kvaran er fæddur í Reykjavík árið 1944. Hann hóf tónlistarnám í Barnamúsíkskólanum þar sem kennari hans var Dr. Heinz Edelstein. Síðar stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Einari Vigfússyni og við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem kennari hans var prófessor Erling Blöndal­ Bengtsson. Framhaldsnám stundaði hann hjá prófessor Reine Flachot í Basel.
Gunnar Kvaran kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík í þrjátíu og fimm ár. Hann var ráðinn prófessor við tónlistardeild Listaháskóla Íslands haustið 2005 og lét af því starfi árið 2012. Hann hefur stundað ,auk fastra starfa ,umfangsmikið tónleikahald bæði heima og erlendis. Hann hefur haldið einleiks og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum, auk Bandaríkjanna og Kanada og m.a. komið fram í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York, í Beethoven Haus í Bonn og Mendelsohn Haus í Leipzig. Hann er meðlimur í kammerópnum Tríó Reykjavíkur. Gunnar hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og allmargar hljómplötur og hljómdiskar hafa verið gefnir út með leik hans. Hann hlaut verðlaun úr sjóði Dr.Gunnars Thoroddsens árið 1990 fyrir tónlistarstörf og var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1996. Mörg undanfarin sumur hefur hann verið gestur á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum. Sumurin 1999 og 2000 var honum einnig boðið að kenna og leika á tónlistarhátíð í Grikklandi. Í desember 2001 var honum boðið að koma fram ásamt Hauki Guðlaugssyni organista á sérstökum hátíðartónleikun í Vendrell á Spáni, fæðingarbæ Pablo Casals. Þann dag voru 125 ár liðin frá fæðingu meistarans. Gunnar var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu í júní 2006.

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.

Alla jafna er veitingastaður Hannesarholts opinn tilkl.17 á sunnudögum, en þennan dag verður boðið uppá kvöldverð eftir tónleikana. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholt@hannesarholt.is