Var hún á leiðinni - dægurlagatónlistin ?

  • 12.6.2019, 20:00 - 21:00, Hljóðberg, 3.000, 2.000

Svipast um eftir upphafi íslenskrar dægurtónlistar [1901 til 1926] – með fáeinum tóndæmum

Hannesarholti 12. júní 2019 kl.20

Leitarsveitin: Bjarni Guðmundsson (söngur og gítar), Jónína Erna Arnardóttir (píanó), Olgeir Helgi Ragnarsson (tenór), Ólafur Flosason (óbó), Sigurgeir Gíslason (harmónika), Sigríður Ásta Olgeirsdóttir (sópran) og Zsuzsanna Budai (píanó)

Dagskrá

Trausti Jónsson flytur kynningar – og inngangsorð

Bjarni Guðmundsson syngur og leikur undir á gítar:

Jónas Jónsson (Plausor) (1850-1917)

Ólundarsöngur með ólundarlagi (Jónas Jónsson) (1901)

 

Olgeir Helgi Ragnarsson tenór, Zsuzsanna Budai píanó:

Árni Thorsteinson (1870-1962)

Nýr hátíðasöngur („Revíulag“, texti sennilega eftir Sigurð Sigurðarson frá Arnarholti) (1902)

Emil Thoroddsen (1898-1944)

Ómögulega tveir (úr revíunni „Haustrigningar“) (1925)

 

Zsuzsanna Budai píanó:

P.O. Bernburg (1882-1935)

Populær Potpourri (1918)

Friðþjófur Marz Jónasson (1897-1940?)

Báruvals (1917)

Huggun (1921)

 

Höskuldur Ólafsson (1908-1971)

Tveir tangóar (1926)

 

Sigurgeir Gíslason, harmónika

Ingi T. Lárusson (1892-1946)

Austfjarðaþokan (óþ. ártal)

 

Hlé

 

Trausti Jónsson: Stutt framhald kynningar

 

Ólafur Flosason óbó , Jónína Erna Arnardóttir, píanó:

Sigvaldi S. Kaldalóns (1881-1946)

            Ljóð án orða (1901 og 1915)

 

Jónína Erna Arnardóttir, píanó:

Arreboe Clausen (1892-1956)

Mímí – vals (1918) – tileinkaður 10 ára afmæli knattspyrnufélagsins Fram

 

Loftur Guðmundsson (1892-1952)

Vorþrá (1916)

Vonbrigði (1917)

 

Sigríður Ásta Olgeirsdóttir sópran, Jónína Erna Arnardóttir píanó:

Loftur Guðmundsson (1892-1952)

Vögguljóð (1912)

 

Jónína Erna Arnardóttir píanó:

Halldór Gunnlögsson (1886-1918)

Ou les pensees se recontrent (1915)

 

Reynir Gíslason (1892-1970)

Berceuse (1926)

Draumórar (1923)

 

Sigríður Ásta Olgeirsdóttir sópran, Jónína Erna Arnardóttir píanó:

Þórarinn Guðmundsson (1896-1979)

Þú ert  (Gestur) (1926)

 

Höfundalisti:

Arreboe Clausen (1892-1956)

Árni Thorsteinson (1870-1962)

Emil Thoroddsen (1898-1944)

Friðþjófur Marz Jónasson (1897-1940?)

Halldór Gunnlögsson (1886-1918)

Höskuldur Ólafsson (1908-1971)

Ingi T. Lárusson (1892-1946)

Jónas Jónsson (Plausor) (1850-1917)

Loftur Guðmundsson (1892-1952)

P.O. Bernburg (1882-1935)

Reynir Gíslason (1892-1970)

Sigvaldi S. Kaldalóns (1881-1946)

Þórarinn Guðmundsson (1896-1979)

 

Kynningartexti:

Nokkuð vantar upp á að íslenskri tónlistarsögu hafi verið gerð viðhlítandi skil. Þessi staða veldur því að menn eins og sá sem hér talar geta látið vaða nokkuð á súðum varðandi hana – án þess að vera alvarlega teknir í bólinu. Umfjöllun þessa verður því að hefja með aðvörunarorðum. Þó ekki verði viljandi farið með staflausa stafi megið þið ekki taka allt sem sagt er sem heilagan sannleik. Tónlistin sem flutt verður er hins vegar alveg raunveruleg – alla vega verður hún flutt nákvæmlega eins og prentaðar heimildir greina. – Við skulum þó hafa í huga að ekki er þó víst að þessar ritheimildir greini alveg satt og rétt frá.  En við förum ekki að eyða tíma í málæði um eðli sannleikans.

Upphaf íslenskrar dægurtónlistar er hulið nokkurri þoku. Henni létti að mestu í kringum 1930 þegar fyrstu lögin birtust á nótum og voru gefin út á hljómplötum. Fyrir þann tíma eru áþreifanlegar heimildir afskaplega óljósar. Dægurlög hafa þó alveg áreiðanlega verið samin og flutt af íslenskum höfundum frá því á 19. öld, því allmikið heyrðist af erlendri tónlist af því tagi og nótnaeign var allútbreidd. Fjöldi manna og kvenna lék á harmónikur, gítara, píanó og fleiri hljóðfæri og öll voru þau notuð á skemmtunum. Við gætum sjálfsagt með lagni og fyrirhöfn endurgert dansleiki þessa tíma.

Hér reynum við þó ekkert slíkt en einbeitum okkur að því „tónlistarléttmeti“ sem út kom á nótum fyrir 1930, eða hefur lifað af í handriti. Ekki var það mikið, en þó nægilega mikið til þess að fylla þessa dagskrá og rúmlega það. Nútíminn er e.t.v. í vafa um hvort þetta sé réttnefnd dægurtónlist – nema þá harmónikulögin. En varla er þetta ljóða- eða kórsöngur – og örugglega ekki sálmalög. Dálítið „lummó“ sumt, en samt hafa höfundarnir ábyggilega flestir hverjir verið bæði ánægðir með afkvæmin og stoltir af þeim – þó ekki hafi þau lifað lengi. Flestir höfundarnir eru líka illa gleymdir (ekki þó alveg allir).  Tími til kominn að einhver nútímaeyru fái að heyra.

Dagskráin fer þannig fram að fyrst gerir Trausti Jónsson áhugamaður í jaðarfræðum grein fyrir lögunum og höfundum þeirra. Síðan verða flutt lög eftir 13 höfunda, úrval úr safni þriggja tuga verka sem fundist hafa í þokuheimum. 

Leitarsveitin:

Bjarni Guðmundsson stundaði kennslu og rannsóknir, síðast við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Hann er höfundur margra bóka og sem áhugamaður hefur hann fengist við tónlist í frístundum sínum.

Jónína Erna Arnardóttir  hlaut fyrstu menntun sína í píanóleik við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, en útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1990 með burtfarar- og kennarapróf.  Aðalkennari hennar var Anna Þorgrímsdóttir. Jónína stundaði framhaldsnám við Griegakademiet í Bergen frá 1991-1995 og lauk þar lokaprófi í píanóleik og kammermúsik með söng sem aukafag.  Aðalkennari hennar þar var Jiri Hlinka.Hún starfaði lengi sem píanókennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar en er nú sem skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi. Jónína er mjög virk í tónlistarlífinu, hún er m.a. meðlimur í Trio Danois, sem samanstendur af Norðmanninum Morten Fagerli og Dananum Pernille Kaarslev en tríóið hefur síðast liðin fimm ár haldið fjölda tónleika í Danmörku, Noregi, Færeyjum, Íslandi, Sviss, Eystrasaltslöndunum og Bandaríkjunum og léku nú 1. desember 2018 í Reykholti ásamt Berþóri Pálssyni dagskrá af tilefni 100 ára fullveldis Íslands. Hún var Listrænn stjórnandi IsNord tónlistarhátíðarinnar í Borgarnesi, sem haldin var 2005--2014, og kom þar fram með m.a. Gunnari Guðbjörnssyni, Bergþóri Pálssyni, Guðrúnu Ingimarsdóttur, Theodóru Þorsteinsdóttur, Dagrúnu Hjartardóttur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur að auki verið meðleikari með fjölmörgum kórum og einsöngvurum öðrum en þeim sem að ofan eru taldir.

Olgeir Helgi Ragnarsson er uppalinn á Oddsstöðum í Lundarreykjadal. Hann hóf söngnám í Söngdeild Tónlistarskóla Borgarfjarðar haustið 1992 hjá Theodóru Þorsteinsdóttur söngkennara. Hann hefur stundað söngnám við skólann með hléum og þar af einn vetur hjá Dagrúnu Hjartardóttur. Olgeir Helgi útskrifaðist með framhaldspróf í söng vorið 2017. Hann hefur sungið í nokkrum uppfærslum á vegum skólans. Olgeir Helgi hefur einnig sótt einkatíma hjá Garðari Cortes, Sigurði Dementz og Keith Reed.

Síðan 1998 hefur Olgeir Helgi sungið 1. tenór með Óperukórnum í Reykjavík (áður Kór Íslensku óperunnar) og tekið þátt í fjölmörgum tónleikum kórsins, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónleikaferðum kórsins til Noregs, Carnegie Hall í New York og Pétursborgar í Rússlandi. Olgeir Helgi hefur tekið þátt í flestum geisladiskum sem gefnir hafa verið út með söng Óperukórsins. Olgeir Helgi hefur sungið með fleiri kórum og komið víða fram. Hann er rekstrarfræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og rekur prentþjónustu í Borgarnesi ásamt því að gefa út vikulegt héraðsfréttablað – Íbúann.

Ólafur Flosason er hljóðfæraleikari og tónslistarkennari með hátt í 50 ára farsælan feril að baki. Hann stundar einnig hrossarækt og sinnir ferðamönnum.

Sigríður Ásta Olgeirddóttir sópransöngkona útskrifaðist frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2016 og stundaði í framhaldi af því nám í einn vetur við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Hún stundar nú leikaranám við Copenhagen International School of Performing Arts þaðan sem hún útskrifast vorið 2020. Sigríður hefur komið fram sem einsöngvari með hinum ýmsu kórum, staðið fyrir tónleikum bæði hér á landi sem og erlendis. Hún er annar stofnanda leikhópsins Flækju sem frumsýnir um þessar mundir nýja barnaleikritið „Það og Hvað“..

Sigurgeir Gíslason hefur leikið á harmóniku í 66 ár. Hann er einnig húsasmiður og var bóndi í Hausthúsum í Eyjahreppi á árunum 1972 til 1996.

Trausti Jónsson er veðurfræðingur að mennt, veit ýmislegt um afkima íslenskrar tónlistarsögu, en kann þó fátt á því sviði. Hann hefur sinnt þar ýmsum verkum á fáförnum slóðum, gerði m.a. fjölmarga tónlistarþætti í útvarp (fyrir meira en 30 árum) og meira að segja líka í sjónvarpi. Hann er stjórnarmaður í „Íslenska einsöngslaginu h/f“.

Zsuzsanna Budai fæddist í borginni Szeged í Suður-Ungverjalandi árið 1964 og hóf pianónám sex ára að aldri. Eftir að hafa lokið námi í tónlistarmenntaskólanum í  Szeged hóf hún nám í Franz Liszt tónlistarháskólanum í Budapest frá 1983-1988 og lauk þaðan MA prófi.  Hún flutti til Íslands árið 1991 og kenndi við tónlistarskóla  Ísafjarðar í sex ár. Síðan settist hún  að Borgarnesi og hefur verið virk í tónlistarlífi í héraðsins í meira en 20 ár. Árið 2008 fékk hún menningarviðurkenningu Borgarbyggðar. Hún kennir á píanó, sinnir meðleik og vinnur sem kórstjóri og organisti.

Veitingastofur Hannesarholts bjóða kvöldverð á undan tónleikunum. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholt@hannesarholt.is